Róló

vefsida

Sirkuslistamenn elska að kanna hið ómögulega, taka áhættur og finna óvæntar leiðir til að leika sér með ólíklegustu hluti.
Hvað gerist ef þú leyfir 12 sirkuslistamönnum að leika sér á róluvelli? Jú, þá gerast töfrar!Sirkus Íslands frumsýnir í sumar nýju fjölskyldusýninguna Róló.

Í sýningunni skyggnumst við inn í einn dag á róluvelli og hittum fyrir karaktera sem eiga leið um róluvöllinn.
Við fáum m.a. að sjá börn að leik, klifurkött og hóp af klaufskum bæjarstarfsmönnum.
Þessir karakterar eru þó ólíkir öðrum því allir eru þeir glæddir sérhæfðum hæfileikum sirkusheimsins og munu sýna áhorfendum ótrúlegar listir á róluvellinum.

Leiksviði sirkustjaldsins Jöklu verður umbreytt í róluvöll þar sem hversdagslegir hlutir á borð við frisbee-diska og bekki fá ný hlutverk í meðförum sirkuslistamannanna sem munu fá áhorfendur til að standa á öndinni.
Sýningin hefur verið í vinnslu í meira en ár og hafa sirkuslistamennirnir æft upp nýjar sirkuslistir fyrir sýninguna sem ekki hafa verið sýndir hérlendis áður.
Má þar t.d. nefna jafnvægislistir á hjóli, smá-cyr hjól og sippubandslistir. Að auki munu áhorfendur fá að sjá grippl, húllahringi, trúðsleik, kínverska súlulist á tveimur súlum, akróbatík, cyr-hjól, jafnvægislistir og reipiloftfimleika, svo eitthvað sé nefnt.

Fjölskyldusýningar Sirkus Íslands hafa notið gríðarlegra vinsælda síðustu ár enda eru sýningar sirkusins engu líkar. Sirkusinn hefur ferðast um landið allt með sýningar sínar síðustu ár og sýnt fyrir hátt í 45.000 áhorfendur. Fjölskyldusýningin Róló er stærsta sýning sirkusins til þessa og því óhætt að lofa mikilli skemmtun þar sem áhorfendur munu til skiptis gráta af gleði og standa á öndinni af undrun.
Sýningin er styrkt af menntamálaráðuneytinu.Miðaverð: 3500 krónur. Börn undir þriggja ára aldri fá ókeypis inn ef þau sitja í fangi foreldra/forráðamanna. Börn yngri en 10 ára verða að vera í fylgd einstaklings sem er 15 ára eða eldri.

Nánari upplýsingar um sýningartíma eru á tix.is

English:
This summer, Sirkus Íslands premieres a brand new family circus show, ‘Róló’. The show will take the audience through a day in the life of a playground, introducing a range of exciting characters and their journey throughout the playground landscape. We meet, amongst others, energetic school children on their way to school, a climbing cat and a group of clumsy council worker clowns trying to do their job right. These characters, each with their own unique circus speciality, display a range of amazing circus skills that will dazzle and amaze.